Réttlætið í kreppunni!

Sumir fá ekki réttlæti vegna dugnaðar eða afskiptaleysis í fjármögnun liðinna tíma! 

Ég var að hlusta á útvarpið áðan, á Þorgerði Katrínu, Árna Þór og Þór Saari ræða möguleg úrræði eða úrræðaleysi í kreppunni.  Til tals komu fyrirhugaðar tillögur félagsmálaráðherra um afskriftir bílalána og þá heyrði ég Árna Þór segja að þá kæmi alltaf upp spurningin um hvort þeir sem geta greitt ættu að fá aðstoð því slík aðstoð væri á kostnað þeirra sem illa eða ekki gætu greitt.

Hvað er í gangi ? 

Snertir kreppan ekki alla landsmenn?  Eru einhverjir landsmenn ónæmir fyrir áhrifum kreppunnar?

Það má greinilega ræða öll mál í sandinn, flækja þau og snúa þannig að engin skilur neitt í neinu.

Eiga þeir sem eru þannig staddir í lífinu að geta greitt af skuldum sínu að greiða niður kreppuna alveg einir?  Urðu þeir ekki fyrir sama tjóninu og aðrir íslendingar?  Hvaða réttlæti er nú í gangi?

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki réttlætishugsun þessa fólks sem heldur aðstoð frá þeim sem hafa annaðhvort ekki steypt sér í skuldir eða hafa komið sér þannig fyrir í lífinu með vinnu og útsjónarsemi, að þeir geta greitt af skuldum sínum þrátt fyrir hækkun þeirra vegna kreppunnar.

Öll verðum við fyrir barðinu á ástandi mála.  Öll missum við kaupmátt, öll missum við eignir því skuldir okkar, stórar sem smáar, hækka án atbeina okkar. 

Fæst okkar fjárfestu um efni fram en öll líðum við fyrir ástand mála.

Hversvegna á þá að byrja á því að hjálpa sumum en ekki öðrum?

Eru ekki allir að líða fyrir kreppuna? 

Hafa ekki allir misst verðmæti, tapað eignum, misst kaupmátt?

Væri ekki nær að hjálpa öllum eitthvað t.d. með beinum niðurfærslum íbúðalána og bílalána, aftengingar verðtryggingar eða öðrum aðferðum sem koma öllum til góða? 

Voru þessar skuldir ekki seldar nýju bönkunum á hálfvirði eða minna? 

Hversvegna ekki að hjálpa almenningi?

Ef einhverjir eru enn í vandræðum eftir slíkar aðgerðir finndist mér ástæða til að skoða hvort skattborgarar allir, séu tilbúnir að aðstoða þá sem meiri aðstoðar þurfa með því að sætta sig við lægra þjónustustig eða dýrari þjónustu.

Það er sjálfsagt að aðstoða það fólk sem er aðstoðar þurfi.

Það ætti því að vera réttlætismál allra íslendinga að lagfæra áhrif kreppunnar hjá öllum íslendingum því allir verða fyrir áhrifum.  Það að félagshyggjustjórn sé búin að vera að velta sér upp úr því á annað ár hvort aðstoða eigi þennan eða hinn vegna þess að einhver annar á eignir er hreinlega kjánalegt því áhrifin eru jöfn á alla, afleiðingarnar þær sömu á alla.  Eini munurinn er að sumir hafa átt aðeins meiri sjóði eða minni skuldir en hinir en þeir eiga ekki að gjalda þess, eða hvað finnst ykkur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband